143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Við fengum málið aftur eftir 2. umr. inn í allsherjar- og menntamálanefnd eftir beiðni frá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni. Hann vildi fá að ræða þar breytingartillögu sína um að fella brott fangelsisrefsingar við þeim lagagreinum sem við erum að fjalla um af því að þær tengjast tjáningarfrelsinu.

Þetta var rætt í nefndinni og tekið undir að umfjöllunarefni væri verðugt, fangelsisrefsingar við vissum brotum á almennum hegningarlögum, en okkur þótti það ekki rétti vettvangurinn til þess að fara að fella brott fangelsisrefsingar á aðeins tveimur lagagreinum og svona afmörkuðu málefni.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og bendir á að umræða um fangelsisrefsingarnar þurfi að fara fram á öðrum vettvangi og ekki sé rétt að gera það undir þessum lið.

Undir þetta nefndarálit skrifar sá sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Líneik Önnu Sævarsdóttur, Oddgeiri Ágústi Ottesen, Guðlaugu Elísabetu Finnsdóttur, Elsu Láru Arnardóttur, Guðbjarti Hannessyni, Haraldi Einarssyni og Svandísi Svavarsdóttur. Að öðru leyti vil ég þakka kærlega fyrir gott starf í nefndinni og við þetta mál.