143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það að taka megi þetta til skoðunar seinna. Það var svolítið af spurningum, ég vona að ég geti komið að þeim í seinna andsvari ef ég næ ekki að klára þær núna.

Hv. þingmaður nefnir að alvarlegustu tilfelli eineltis tengist oft gríni, það er alltaf þessi afsökun hjá þeim sem beita einelti að þetta hafi nú bara verið grín. Ég veit allt um það sjálfur enda lenti ég í mjög miklu einelti í æsku og ég veit að þegar krakkar leggja aðra í einelti koma þeir almennt fram við aðra manneskju eins og leikföng. Þeir sjá ekki að þeir séu að gera neitt rangt. Ég veit allt um þetta vandamál og ég þekki það á eigin skinni.

Hvar fína línan er, það er eitthvað sem þarf að eiga við í hverri stofnun fyrir sig. Hér erum við að tala um almenn hegningarlög, hér erum við að tala um hvað má tjá nokkurs staðar. Ef ég er til dæmis með vefsetur sem einungis er ætlað fullorðnu fólki að ræða alvarleg málefni, þá gilda þar almenn hegningarlög. Það er síðan allt önnur spurning hvernig á að eiga við einelti í skólum, á vinnustöðum eða einhverju því um líku. Það er eitthvað sem á heima í reglum hverrar stofnunar fyrir sig. Út á það hef ég ekkert að setja enda er ég þingmaður, er ekki í öðru starfi í augnablikinu.

Hvað varðar spurninguna hvort fangelsi hafi verið beitt. Nei, mér vitandi hefur því aldrei verið beitt sem betur fer, og mér skilst að enginn vilji það í raun og veru. Þess vegna skil ég ekki alveg hvers vegna ekki megi innleiða þessa breytingartillögu hér og nú, því að það virðist enginn standa upp og segja: Það þarf að vera fangelsi.

Hvað varðar fangelsi eftir að sekt er ógreidd, það er hætt við því að almenningur lesi lögin og þegar almenningur les lögin les hann þau væntanlega og skilur þau eins og þau koma fram á íslenskri tungu án tillits til þess hvað einhverjir lögfræðingar í dómsal segja, því að ég vænti þess að við viljum að almenningur skilji lögin rétt. Ef maður les þessa grein eins og hún er gefur hún til kynna og gefur manni óhjákvæmilega þann skilning, eins og umræðan í samfélaginu sýnir og sannar, að þetta er túlkað miklu víðar en lögfræðingur mundi gera.

Síðast en ekki síst — ég er því miður búinn með tímann: Er of þröngur stakkur skorinn að tjáningarfrelsi í almennum hegningarlögum? Svarið er tvímælalaust: Já, það er of þröngur stakkur skorinn að tjáningarfrelsi á Íslandi í dag. Vil ég nefna sérstaklega 95. gr. og 125. gr. (Forseti hringir.) almennra hegningarlaga sem hefur verið beitt. Það hefur verið dæmt, það hefur farið í gegnum Hæstarétt og það þykir standast stjórnarskrá að banna beinlínis að gera grín að trúarbrögðum á Íslandi. Ég vitna til máls nr. 16 frá 1983.