143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[15:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þessa skýrslu. Ég held að undirbúningur stefnumótunar og ákvarðanatöku í þessu máli sé í alveg réttum farvegi og reyndar var ákveðið fyrir nokkru síðan að sérstök sérfróð nefnd mundi undirbúa tillögur um framtíðarfyrirkomulag þessar mála. Það er öllum ljóst að við höfum búið við tímabundnar aðstæður og mjög sérstakar. Ég tel að það hafi sannað sig að stofnun embættis sérstaks saksóknara var auðvitað óumflýjanleg, nauðsynleg aðgerð og í það heila tekið hafi það gengið vel sem og að sameina efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra því embætti á meðan unnið væri úr málum við núverandi aðstæður. En að sjálfsögðu þarf að leggja drög að því hvernig þetta verður til lengri framtíðar litið. Skýrslan, umræður um hana hér og umfjöllun í þingnefnd er að sjálfsögðu mjög gagnlegt innlegg í það ferli.

Auðvitað gefst mönnum færi á því að velta betur fyrir sér þeim tillögum eða valkostum sem hér er velt upp, en fljótt á litið virðist það skynsamlegt að við reynum að stefna að sambærilegu skipulagi á þessu sviði á Íslandi og er í okkar nágrannalöndum og þeim löndum sem við gjarnan berum okkur saman við eða lítum til fordæma til. Spurningin er bara hversu stórt skrefið verður og hvað hentar okkar smæð og aðstæðum. Eitt er víst að við getum ekki í ljósi reynslunnar látið það eftir okkur að gera ekki ráð fyrir að hér geti komið upp efnahagsbrot og jafnvel stór og flókin. Við verðum að hafa þann viðbúnað til staðar sem þarf til að takast á við slíkt.

Reyndar hefur heildarskipulag löggæslu, rannsókna og ákæru mála verið í mótun, verið að taka breytingum á Íslandi. Við vorum með mjög gamalt fyrirkomulag sem stóðst ekki skoðun þegar betur var að gáð. Það hefur svo verið að breytast í átt til aðskilnaðar þeirra þátta sem þarf að aðskilja eftir áminningar og dóma úti í Evrópu o.s.frv. Síðan hefur nokkrum breytingum verið frestað ítrekað undanfarin ár af fjárhagsástæðum eins og millidómstigi og héraðssaksóknarafyrirkomulaginu.

Það er margt skynsamlegt reifað í þessari skýrslu, þar á meðal áhersla á mikilvægi efnahagsbrota og alvarlegra efnahagsbrota og dregið er fram hversu stórir hagsmunir og miklir fjármunir eru þar á ferð. Að því leyti til er þetta svið ólíkt mörgum öðrum, það eru mjög miklir hagsmunir í húfi, bæði varðandi þá fjármuni sem um er að tefla hverju sinni og skapa forvarna- og varnaðaráhrif af því að tekið sé fast á refsiverðu athæfi á þessu sviði. Auðvitað getur skipt máli í sambandi við skattheimtu að endurheimta skatttekjur sem ranglega hefur verið haldið undan, sektir o.s.frv., að þessu sé vel sinnt af hálfu ríkisins.

Hvort sem þetta er sameinað í stærri eða smærri skrefum held ég að reynslan sýni okkur að þeir aðilar sem vinna á þessu sviði þurfa að geta unnið mjög vel saman. Ég áskil mér að minnsta kosti rétt enn sem komið er til þess að velta því betur fyrir mér hvort skynsamlegt sé að fara með skattrannsóknir saman við almenn efnahagsbrot, en ég deili ekki um hitt að mjög mikilvægt er að þessir aðilar vinni saman, að mál ónýtist ekki þegar þau ganga á milli aðila af rannsóknarstigi yfir á ákærustigið o.s.frv. Á það er líka bent í skýrslunni að mikilvægt er að þegar farið er í húsleitir og haldlagningu gagna séu þær aðgerðir þannig undirbúnar að þær skili tilætluðum árangri.

Á þessu stigi mála væri ég því heldur á fyrri valkostinum sem gengur skemur, alla vega sem fyrsta skrefi. Hitt gæti komið síðar, sérstaklega ef það tengdist þeim breytingum að skattrannsóknarstjóri fullrannsakaði skattalagabrot þannig að um engan tvíverknað væri að ræða í því tilviki.

Að lokum vil ég leggja á það áherslu varðandi tímasetningar og þær ráðstafanir til bráðabirgða sem hér eru lagðar upp í raun fyrir árið sem þegar er hafið, svo sem að fresta stofnun héraðsaksóknaraembættis og starfrækslu embættis sérstaks saksóknara á þessu ári, (Forseti hringir.) að menn gæti sín áður en þeir taka ákvarðanir um að ætla síðarnefnda embættinu of skamman tíma. Ég hefði talið raunhæfara miðað við þær upplýsingar eða fréttir sem ég hef að embætti sérstaks saksóknara starfaði í aðalatriðum í óbreyttri mynd út árið 2015. Hann hefði (Forseti hringir.) þá væntanlega næstum lokið viðfangsefnum sínum og þá væri kannski betri tími til breytinga.