143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér í sumar var lögum um Ríkisútvarpið breytt og skipan í stjórn breytt; breyting sem við í minni hlutanum vorum ósammála. Í meðförum þingsins var svo ákveðið að fjölga stjórnarmönnum úr sjö í níu. Þá kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, framsögumanns málsins, að þetta væri til að fleiri sjónarmið fengju að heyrast innan stjórnar. Það var nokkuð ljóst að mínu mati að það hlaut að þýða að ætlunin væri, úr því að menn vildu hafa stjórn Ríkisútvarpsins þannig skipaða að þingflokkar tilnefndu sína fulltrúa í hana, að allir þingflokkar fengju þar fulltrúa. Og það er það sem ég vona að muni gerast hér í dag, að við munum áfram sjá stjórn Ríkisútvarpsins þannig skipaða að allir þingflokkar eigi fulltrúa en ekki verði reynt að henda fulltrúa eins þingflokks, Pírata, út úr stjórninni til að fjölga þar stjórnarliðum þannig að þessi fjölgun um tvo fulltrúa sé í raun bara til að fjölga fulltrúum meiri hlutans í stjórninni en ekki til að fjölga þar sjónarmiðum, eins og sagt var af hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni þegar hann mælti fyrir breytingartillögunni.