143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í II. kafla laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, kemur skýrt fram að hlutverk og skyldur þess skuli vera að vera fjölmiðill í almannaþágu. Þá spyr maður sjálfan sig: Hvað þarf fjölmiðill sem á að vera fjölmiðill í almannaþágu að hafa? Það mun vera í almannaþágu að fjölmiðlar ræki hlutverk sitt sem fjórða valdið, veiti hinum valdstoðum samfélagsins aðhald. Ég efast um að nokkur hérna inni trúi því að þeir sem skipa stjórnir sem síðan skipa framkvæmdastjóra fjölmiðla og auglýsendur hafi ekki áhrif. Ef þeir hafa áhrif geta þeir minnkað aðhaldið.

Ef við ætlum að vera með fjölmiðil í almannaþágu ætti almenningur að fá að kjósa hverjir sitja í stjórn. Hvers vegna ekki? Eða í það minnsta (Forseti hringir.) væri hægt að setja upp lögin og kalla eftir að fá af handahófi almenna borgara til að meta hverjir eru hæfir af þeim sem bjóða sig fram. Það væri ein leið. En leiðin sem er farin hérna er að það sé mikill meiri hluti fyrir þeim sem ræður því hverjir sitja í stjórn og „basically“ eru almannahagsmunir þá ekki uppfylltir.