143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Spurningin er þessi: Hvers virði eru orð? Er það orðið þannig að ekki sé hægt að treysta því að samkomulag standi öðruvísi en að menn setji stafina sína undir það og hæstv. forsætisráðherra sé í símanum? Er það svoleiðis? Eða er það þannig að menn hafi hér stöðu til þess að ljúka málum? Dettur einhverjum í hug að minni hlutinn hafi fallist á það að fjölga stjórnarmönnum úr sjö í níu til að fjölga stjórnarfulltrúum í stjórn Ríkisútvarpsins? Ég bara bið hv. þingmenn að gefa merki. Hverjum dettur það í hug?

Þetta eru ekkert annað en blekkingar ef hv. þingmenn stjórnarflokkanna halda því fram að þetta hafi verið viljinn til að byrja með, að sækja tvo stjórnarliða til viðbótar í stjórn RÚV. Það var ekki sagt þegar hér var verið að ræða við fulltrúa minni hlutans á göngunum. Það var ekki sagt.

Ég bið hv. þingmenn stjórnarflokkanna núna að líta í eigin barm. (Forseti hringir.) Finnst þingmönnum sómi að þessum vinnubrögðum? Standa þeir með þessum vinnubrögðum? (Forseti hringir.) Nú ríður á að hver og einn þingmaður eigi samtal bara við eigin sannfæringu, bara við það hvort orð eigi að standa hér í þingsal. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)