143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Varðandi þau ummæli forsætisráðherra að hv. þm. Helgi Hjörvar, ég og fleiri, höfum borið á hann rangar sakir var ég einn af fjölmörgum sem var hér í þingsalnum þegar formaður og framsögumaður nefndar gerði grein fyrir samkomulagi, talaði fyrir nefndaráliti og það er lögskýringargagn. Það er nú ekki verið að fara með meira fleipur en það að vitna í lögskýringu flutta hér úr ræðustól á Alþingi um að samkomulag sé um að dreifa stjórnarfulltrúunum svona.

Varðandi það að breikka stjórn Ríkisútvarpsins veit ég ekki betur en Ingvi Hrafn Óskarsson sé fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, veit ekki betur en Magnús Stefánsson sé fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins. Ég veit ekki betur en Úlfhildur Rögnvaldsdóttir sé fyrrverandi bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri. Ég veit ekki annað en Ásthildur Sturludóttir sé núverandi sveitarstjóri Sjálfstæðisflokksins og ég veit ekki annað en Guðlaugur G. Sverrisson sé fyrrverandi formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík, stjórnar Orkuveitunnar, og frambjóðandi á vegum Framsóknarflokksins. Þetta er breiddin, hæstv. menntamálaráðherra.