143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

uppbygging hafnarmannvirkja á Bíldudal.

[15:32]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt að heimamenn á Bíldudal eða í Vesturbyggð hafa haft samband við mig, og reyndar fleiri ráðherra í ríkisstjórninni, þar sem, eins og þingmaðurinn gat um, það verkefni sem hér um ræðir er á verksviði fleiri en eins ráðherra. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni sem gæti haft mjög jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu á þessu svæði og búsetuskilyrði þannig að ég vona svo sannarlega að úr því verði.

Við erum að skoða þetta í mínu ráðuneyti og á milli ráðuneyta. Þetta eru verkefni, varðandi hafnarframkvæmdir og annað, sem líka snerta innanríkisráðherra og samráðherra minn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem þetta snertir fiskeldismál og annað.

Það sem ég get sagt á þessu stigi máls er að við erum með þetta til skoðunar. Við höfum verið í góðu sambandi við heimamenn sem hafa haldið afar vel á þessu máli, verð ég að segja, og komið vel undirbúnir á okkar fundi. Þetta er til skoðunar hvað varðar samstarf á milli ráðuneytanna. Einnig verðum við að skoða það sem snýr að mínu ráðuneyti, og er ekki alveg einfalt í þessu samhengi, hvernig ríkisstyrkjareglur EES, sem ESA hefur náið og grannt eftirlit með, hvernig við getum reynt að finna þessu stað innan þess regluverks.

Þetta er það sem ég get sagt um málið á þessu stigi.