143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

vernd og nýting ferðamannastaða.

[14:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Vöxtur og viðgangur ferðaþjónustunnar er vissulega ánægjulegur og hefur skipt þjóðarbúið miklu á erfiðum tímum, en það fylgir óhjákvæmilega að aukinn fjöldi og aukin ásókn verður á fjölsótta ferðamannastaði og nú í vaxandi mæli bæði sumar og vetur. Því miður hefur núverandi ríkisstjórn spólað til baka í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum og í ár verður meira en helmingi minna fé varið til fjárfestinga í innviðum ferðaþjónustunnar en í fyrra.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur, vegna hallans frá fyrra ári og vegna niðurskurðar í fjáraukalögum, aðeins 245 millj. kr. til ráðstöfunar á þessu ári. Hann er að vinna úr umsóknum upp á 860 milljónir. Og með mótframlögunum, sem almennt er gert ráð fyrir að leggja fram, má ætla að aðilar meti þörfina 1,2 milljarða kr. hið minnsta. Upp í það eru þó 245 milljónir í staðinn fyrir að sjóðurinn hefði haft til ráðstöfunar á fyrra ári 665 milljónir ef ríkisstjórnin hefði ekki krukkað í hann í fjáraukalögum. Engu að síður verður þarna meira en helmingi minni fjármunum varið í þessa beinu uppbyggingu.

Til viðbótar því kemur harkalegur niðurskurður á landvörslu sem ég hef reyndar óskað eftir sérstakri umræðu um við þann hæstv. ráðherra í ríkisstjórn sem að sögn fer með umhverfismál og verður hún vonandi á næstunni.

Þessi mál eru að komast í algjöra upplausn hjá hæstv. ríkisstjórn, meðal annars vegna þess að menn sjá ekki fram á stuðning úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á næstu missirum. Þá brestur menn þolinmæðina og menn fara sjálfir af stað í gjaldtöku. Hún verður þá handahófskennd og tilviljanakennd og án nokkurs samræmis og ég sé ekki betur en að ríkisstjórnin sé algjörlega að missa tökin á þessum málum. Ég skora þar af leiðandi á hæstv. ríkisstjórn að endurskoða þetta og láta af meinbægni sinni (Forseti hringir.) í garð fjárfestingaráætlunar fyrrverandi ríkisstjórnar og láta ekki verkefni af þessu tagi gjalda þess að þau áttu að fá úrlausn þar. Það verður einfaldlega (Forseti hringir.) að bæta í Framkvæmdasjóðinn og fullvissa menn á Geysissvæðinu eða annars staðar um að þeir muni fá stuðning til áframhaldandi (Forseti hringir.) uppbyggingar á stöðunum.