143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

vernd og nýting ferðamannastaða.

[14:25]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Bryndísi Pétursdóttur, kærlega fyrir að vekja athygli á ágengum spurningum um helstu atvinnugrein okkar um þessar mundir, ferðaþjónustuna. Við spyrjum okkur hvort við höfum gengið götuna til góðs þar. Eigum við að dreifa ört vaxandi ferðamannafjölda um landið eða er betra að hafa þá sem flesta á sömu stöðunum til þess að hafa betur hemil á og yfirsýn og auðvelda þannig að taka gjöld fyrir? Þetta eru vissulega áleitnar spurningar. Einnig sú spurning hvað veldur því að staður verður vinsæll ferðamannastaður. Höfum við heimamenn sjálf ákveðið hvað er eftirsóknarverðara umfram eitthvað annað? Um leið og við ræðum um þolmörk ferðamannastaða, ekki síst vegna þeirrar gríðarlegu aukningar sem hefur orðið á ferðamönnum frá aldamótum, segja aðrar tölur okkur að tekjur ríkisins af helstu vaxtagrein okkar minnka á hvern einstakling í nánast réttu hlutfalli við aukninguna. Það er furðulegt.

Árið 2000 komu hingað rúmlega 300 þúsund ferðamenn en árið 2012 voru þeir orðnir tæplega 700 þúsund. Þá erum við að tala um fyrir utan farþega á skemmtiferðaskipum. Þetta er meira en tvöföldun. Frá árinu 2002 hafa tekjur af hverjum einstakling minnkað um helming. Við fengum 60 þúsund í tekjur af ferðamanninum árið 2002 en rúm 30 þúsund 2012. Þá hlýtur maður að spyrja sig enn og aftur: Hvað er á seyði?

Sannarlega er erfitt við þessar aðstæður að láta uppbyggingu og viðhald staða og svæða haldast í hendur við fjölgun gesta. Nú er svo komið að ýmsir halda því fram að átroðningur ferðamanna á viðkvæmum stöðum sé orðinn helsta umhverfisváin hér á landi. (Forseti hringir.) Þá tala ég ekki um vetrarferðamennskuna, sem einnig kallar á allt öðruvísi umhirðu gagnvart ferðamanninum sem og hálkuvarnir og aðgát á mörgum sviðum. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég mun fara nánar yfir þetta í seinni ræðu minni.