143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fara í andsvör eftir einstakar ræður þingmanna en stóðst ekki mátið. Ég verð að segja að mér fannst síðustu orð hv. þingmanns mjög ósanngjörn. Ég útskýrði mjög skýrt í ræðu minni rökin fyrir framlagningu þessa frumvarps. Það er ekki lagt fram „af því bara“, það er ekki eitthvert grín. Við erum stödd á Alþingi Íslendinga og þetta er eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Ég vona svo sannarlega að þingmaðurinn virði mig þó það mikils, ég legg ekki fram frumvörp „af því bara“.

Þingmaðurinn nefndi að í stjórnskipun flestra vestrænna ríkja væri það meginstef og jafnvel meginregla að tryggja aðkomu sem flestra að einstökum ákvörðunum. Við skiljum það vel og ég hef ekkert út á það að setja að einstök sveitarfélög hlutist til um sín mál, en eins og ég nefndi í ræðu eru nokkur málefni sem snúa að sveitarfélögum það stór að ég tel að þau eigi frekar heima á borði lýðræðislega kjörinna fulltrúa allrar þjóðarinnar. Við getum svo rætt það einhvern tíma seinna hvort hafi átt að skipta Reykjavíkurkjördæmi í tvö kjördæmi til þess að hver þingmaður Reykvíkinga hafi fleiri atkvæði á bak við sig. Það er önnur umræða.

Ég skil vel að borgarfulltrúum finnist eins og verið sé að taka frá þeim eitthvað sem er þeirra heilagur réttur. Svo er ekki. Ég er eingöngu með framlagningu frumvarpsins að tryggja aðkomu sem flestra. Er þingmaðurinn ekki sammála því (Forseti hringir.) að þetta frumvarp, ef það næði fram að ganga, mundi tryggja að allir landsmenn ættu sinn fulltrúa við borðið (Forseti hringir.) þegar tekin er endanleg ákvörðun?