143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

heilbrigðisþjónusta og sjúklingagjöld.

[15:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það hefur komið fram hjá ræðumönnum á undan mér að þáttur sjúklinga í heilbrigðisþjónustu sé miklu hærri hér á landi en gengur og gerist í löndunum sem við miðum okkur gjarnan við. Það er ýmislegt sem kemur þar til og skýrir af hverju þetta er, t.d. er hlutur sjálfstætt starfandi sérfræðinga mjög stór hér á landi og þótt stór hluti af þeim kostnaði komi úr sameiginlegum sjóðum þá vegur hlutur sjúklinga þar líka mjög mikið.

Gjöld sem göngudeildarsjúklingar greiða síga verulega í og ef fólk þarf að sækja göngudeildarþjónustu um langan tíma verður kostnaðurinn óheyrilegur eins og komið hefur fram hér. Það er óneitanlega kaldhæðnislegt að komugjöld á heilsugæslustöðvar hafi verið hækkuð um 20% í upphafi ársins þegar ríkisstjórnin, Seðlabankinn, atvinnurekendur, viðskiptaráð og hvað þeir allir heita eru búnir að lýsa ábyrgð á verðbólgunni á hendur launafólki, að það megi ekki fá nema 2,5% sem endaði svo í 2,8% í kauphækkanir — um leið eru komugjöld á heilsugæslu hækkuð um 20%. Þetta stenst ekki alveg.

Við megum heldur ekki gleyma þegar við tölum um kostnað sjúklinga, þó að það sé kannski undanskilið í einhverjum reiknitöflum, lyfjakostnaðinum sem er mjög hár hér á landi þó að hann hafi hugsanlega lækkað eitthvað hlutfallslega á undanförnum árum.

Það er hægt að stýra þessu. Eina lausnin sem fólk virðist finna er að þeir sem leggjast inn á sjúkrahús fari að borga líka. Það er ekki það eina sem hægt er að gera. Það er hægt að beina fólki á þá staði sem ódýrastir eru (Forseti hringir.) og lækka þannig aðeins kostnaðinn. Ég er ekki að tala um að lækka (Forseti hringir.) kostnað á Landspítalanum. Töfraorðið í því er þjónustustýring og (Forseti hringir.) hét áður tilvísunarkerfi.