143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta hefur óneitanlega verið undarleg umræða um margt vegna þess að hér erum við fyrst og fremst að ræða um ríkisábyrgðir. Auðvitað eru allir sammála um að hér þurfa að vera góðar og öflugar tengingar til landsins og ég veit ekki um nokkurn mann sem hefur mótmælt því á nokkurn hátt. En þegar Ríkisendurskoðun stígur fram og bendir á að við þurfum að skoða þessi atriði eigum við þá ekki að ræða þau hér á Alþingi, eigum við ekki að fara aðeins yfir það hver staða ríkissjóðs er og hvert vandamálið raunverulega er?

Við getum komið hér upp og spurt hvert annað hvort við eigum ekki að setja alla heimsins peninga í öll þau góðu mál sem lúta að hugðarefnum einstakra þingmanna. En þegar allt kemur til alls þurfum við að reka ríkissjóð og við þurfum að reka hallalausan ríkissjóð. Það er markmiðið til að hægt verði að treysta undirstöðu velferðar, internettenginga, sem allir eru sammála um alveg sama um hvað er rætt.

Ábendingar Ríkisendurskoðunar eru einfaldlega það alvarlegar að það er mjög mikilsvert að taka það upp hér á Alþingi. Ég vil þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni fyrir að svara hér skýrt og skilmerkilega.

Það sem upp úr stendur er að við þurfum að virða skilyrði laga um ríkisábyrgð. Við verðum að tryggja að allar fullnægjandi skýringar komi fram í frumvörpum til laga og að þær takmarkanir sem eiga við um ríkisábyrgðir séu í umsömdum skuldbindingum ríkisins. Að sjálfsögðu þarf að tryggja fjarskiptasjóði nægilegt fjármagn til þess svo að hann geti sinnt öllu því eftirliti sem honum ber. (Forseti hringir.) Um þetta snýst umræðan en ekki það hvort við höfum viljað taka hér upp einhvers (Forseti hringir.) konar morsekerfi eða eitthvað slíkt. Að sjálfsögðu viljum við tryggja öruggt og gott samband (Forseti hringir.) — virðulegi forseti, ég er að ljúka máli mínu — þannig að vonandi verði hægt að ráðast í gagnaver í náinni framtíð.