143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Sú skýrsla sem nefndarálitið sem við fjöllum um hér byggist á var mjög vel gerð og hefur hlotið mjög vandaða meðferð í meðförum þingsins. Atvinnuveganefnd fékk góðan tíma til þess að gaumgæfa skýrsluna, kallaði til sín fjölda gesta og í raun og veru voru þessi vinnubrögð til fyrirmyndar vegna þess að í þeim felst mikið samráð við þingið. Skýrslan hefur komið tvisvar til umræðu á Alþingi og er það mjög vel vegna þess að málið er stærra en blasir við í skjótu bragði.

Okkur Íslendingum hættir stundum til að halda að við getum leyst vanda allra manna í heiminum, að við getum framleitt mat fyrir allan heiminn og nú höfum við einhver í huga að við getum framleitt rafmagn fyrir alla Evrópu. En auðvitað er það ekki svo. Við búum við takmarkaðar auðlindir sem við þurfum að vanda okkur við að nýta og þess vegna þurfum við að hugsa vel um hvernig við tökum þá kosti til virkjana sem nauðsynlegt er að taka í notkun.

Ef rafstrengur yrði lagður til Evrópu í náinni framtíð þyrftum við að taka til virkjunar jafn stóran virkjunarkost og Kárahnjúkavirkjun. Það er ekki vegna þess að rafmagnsflutningurinn sé að staðaldri jafn mikill og framleitt er í slíkri virkjun heldur þarf strengurinn á þessari framleiðslugetu að halda við mestu afköst. En áður en við tökum svo stóra ákvörðun sem felst í því að leggja slíkan sæstreng þurfum við náttúrlega að stíga varlega til jarðar og aðgæta alla þætti, því að enn þá er málið óþroskað og þarfnast miklu meiri skoðunar. Það kemur reyndar fram í því nefndaráliti sem lagt er hérna fram og allir voru sammála um. Þar er ekkert útilokað en þar taka menn hins vegar ekki neina flýtiákvörðun.

Það sem ég hef haft einna stærstar áhyggjur af eða það sem vefst kannski mest fyrir mér í málinu er hvort rétt sé að taka ákvörðun um þetta með tilliti til þeirra umhverfisáhrifa sem strengurinn hefur. Umhverfisáhrifin eru mjög margþætt. Í fyrsta lagi eins og áður kom fram þurfum við að taka svo stóran virkjunarkost sem ég nefndi undir. Þetta kallar á mikla línulögn með tilheyrandi umhverfisáhrifum og ekki síst hefur lagning strengs mikil áhrif á hafið, bæði þar sem strengurinn tekur land á grunnsævi og það kemur fram í skýrslunni sem lögð var fram að hætta er á að botndýralíf skaðist og jafnvel að lífríkið verði fyrir meiri röskun út af hita og öðru. Það hefur líka verið nefnt að lagningin geti haft slæm áhrif á sjávarbotninn, en þetta vitum við ekki, þetta hefur ekki verið rannsakað. Og við erum jú að tala um 1.200 kílómetra langan streng og slíkur strengur hefur ekki enn þá verið lagður.

Síðan er náttúrlega gríðarleg óvissa í tekjumöguleikum af sölu raforku um strenginn. Það segir mjög framarlega í skýrslunni að útflutningstekjur Íslendinga gætu numið á milli 4 og 76 milljörðum. Ég viðurkenni fúslega að þetta þykir mér of mikil óvissa til að hlaupa til og fara í þetta mál að lítt athuguðu máli.

Það er reyndar annað sem ber að taka tillit til í þessu efni. Það er hversu mörg framtíðarstörf strengurinn sem slíkur skapar þegar hann hefur verið lagður, þegar og ef. Ég spurði allmarga gesti sem komu fyrir nefndina ítrekað að þessu. Það sem fyrir mér vakti var að hrekja þá hugmynd sem ég hafði að að strengnum lögðum yrðu til fjögur til fimm framtíðarstörf á Íslandi, þ.e. störf nokkurra vélgæslumanna í virkjunum og eins rukkara sem væru við innheimtustörf vegna strengsins. Og með mikilli virðingu fyrir þessum starfsstéttum báðum þykir mér nokkuð í lagt að taka virkjunarkost eins og ég lýsti áðan til þess að skapa hér örfá framtíðarstörf í stað þess að nota þá orku sem slíkur virkjunarkostur mundi afla til þess að efla innlenda starfsemi af öllum gerðum og stærðum. Ég er ekki að tala endilega um stóriðju þó að slíkir kostir séu vissulega áhugaverðir. Þar á meðal er mjög brýnt að reisa áburðarverksmiðju á Íslandi sem notar 200 megavatta orku, sem skapar 200 störf til framtíðar, sem skapar gríðarlegar útflutningstekjur. Áburður er hráefni sem mun ekki gera neitt annað en að hækka í verði á næstu áratugum. Það kemur fram t.d. í OECD-skýrslu að það þurfi að auka matvælaframleiðslu í heiminum um 50% á næstu 20 árum. Hvernig gera menn það? Þeir gera það ekki öðruvísi en með aukinni notkun tilbúins áburðar.

Allt þetta þurfum við að hafa í huga þegar við tökum ákvörðun í þessu efni. Með þessu er ég ekki að útiloka neitt, ég er einfaldlega að halda því fram að við þurfum að vanda okkur mjög við ákvörðunartöku, við eigum ekki að hlaupa að henni. Það bíða okkar mjög brýn verkefni í raforkumálum innan lands sem við þurfum líka að huga að. Ég viðurkenni fúslega að mér finnst brýnna verkefni að koma upp þriggja fasa rafmagni t.d. í Skaftárhreppi og víðar um land á Íslandi en að skaffa Bretum ódýrt rafmagn til húshitunar og til þess að steikja beikon og egg. Ég viðurkenni fúslega að það er framar í minni forgangsröðun að efla dreifikerfið innan lands þannig að raforkuafhending til Íslendinga sjálfra verði sómasamleg.

Að þessu sögðu legg ég áherslu á að við þurfum að vanda okkur. Við skulum halda áfram að gera það. Þetta mál hefur hingað til fengið mjög vandaða meðferð, skýrslan er mjög góð þó að óvissuþættirnir séu miklir, hún tekur á mjög mörgu. Og það er hygginna manna háttur að skipta um skoðun, Winston Churchill sagði það einhvern tíma að það væri hreinn heimskingi sem aldrei skipti um skoðun, þannig að auðvitað skiptir maður um skoðun þegar rökin bjóða upp á það. En rökin verða að vera býsna góð vegna þess að þessi framkvæmd er stór og hún kallar á mjög mikið af óafturkræfum áhrifum.

Hæstv. forseti. Ég segi: Við skulum halda áfram að kanna þetta mál. Okkur liggur ekki lífið á. Orkuverð í heiminum, þar á meðal í Evrópu, mun halda áfram að hækka, það lækkar ekki úr þessu þó að menn hafi fundið aðferðir vestur í Ameríku til að vinna gas með tröllkarlalegum aðferðum. Við skulum fara okkur hægt í þessu máli og taka okkur endilega taka þann tíma í meðförum Alþingis sem þarf til þess að komast að góðri niðurstöðu.