143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

staða tónlistarskóla.

[13:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem hér er bent á að hluti af samkomulaginu er auðvitað sú staðreynd að ríkið sér um framhaldsmenntun á öðrum sviðum en tónlistinni. Það liggur alveg skýrt fyrir hvernig lögin eru. Það liggur alveg skýrt fyrir hvar ábyrgðin á þessu máli er. Hún er hjá sveitarfélögunum lögum samkvæmt. Ég ítreka að eins og þessi vinna stendur núna er ekki verið að leggja upp með breytingar þar á.

Ég vonast auðvitað til þess að við getum lokið þessu frumvarpi á þessu þingi. Aðalatriðið er þó að við vöndum vel til verka og fáum góða niðurstöðu í málið. Ef það tekst ekki að klára nýtt frumvarp, sem ég ítreka að ég vona að takist, þá liggur að minnsta kosti alltaf á að klára samkomulagið. Ég vonast til að það verði gott samstarf milli sveitarfélaganna og okkar um að klára það. En það breytir ekki því að hin lögformlega staða málsins er alveg skýr. Hún er skýr núna og ekkert getur í raun og veru breytt því í núgildandi lögum að ábyrgðin er hjá sveitarfélögunum í þessum efnum.