143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

skipulagsbreytingar í framhaldsskólakerfinu.

[13:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í IV. kafla laga um framhaldsskóla sem samþykkt voru í júní 2008 er fjallað um skipulag náms og námslok og í V. kafla er fjallað um námskrár og námsbrautir. Skipulagsbreytingar sem með lögunum fylgdu eru að mestu í þeim tveimur köflum, enda var samþykkt ákvæði til bráðabirgða að ekki þyrfti að uppfylla ákvæði IV. og V. kafla fyrr en 1. ágúst 2011.

Stuttu eftir gildistöku laganna hrundi efnahagslíf Íslands og fyrirsjáanlegt var að ekki væri mögulegt að greiða úr ríkissjóði þann kostnað sem fylgdi breytingunum. Því var frestur framhaldsskóla til að setja sér námsbrautalýsingar framlengdur til ársins 2015.

Í fjárlögum fyrir árið í ár er hins vegar ekki gert ráð fyrir fjármagni til að gera skólunum kleift að vinna þá þróunarvinnu sem nauðsynleg er til að uppfylla þær skyldur að leggja fram nýjar námsbrautalýsingar á tilsettum tíma, námsbrautalýsingar m.a. um styttri námstíma til stúdentsprófs. Eftir mikla umræðu og deilur um áform um styttingu námstíma til stúdentsprófs á árunum 2003–2007 var sú stefna tekin, sem birtist í lögunum um framhaldsskóla, að gefa skólunum aukið frelsi til að þróa námsbrautir, bæði verklega sem bóklega. Það gæfi þeim einnig færi á að nýta sem best mannauð skólanna og þjóna nærsamfélögum þeirra. Einingafjöldi til stúdentsprófs er ekki bundinn í lögunum og hæstv. ráðherra er því heimilt að setja lágmarkseiningafjölda með reglugerð.

Nú hefur hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra boðað skipulagsbreytingar í framhaldsskólum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort þær séu af öðrum toga en gert er ráð fyrir í lögunum frá árinu 2008 og hvort hann telji ekki farsælla að vinna að breytingum í skólakerfinu þegar kennarar og skólar vinna að því sjálfir, eins og gert er ráð fyrir í lögunum eða andi laganna frá 2008 gerir ráð fyrir, frekar en með skipunum úr ráðuneytinu.