143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Fjóla Hrund Björnsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég tel mikilvægt að stuðla að auknu umferðaröryggi á Suðurlandsvegi til austurs. Að keyra frá Reykjavík til Selfoss á góðum degi er eins og að keyra niður Laugaveginn, svo mikil er umferðin. Leiðin yfir Svínahraun er 2+1 vegur. Í hvert einasta sinn sem ég keyri yfir Svínahraunið vonast ég til þess að ekki komi sjúkrabíll með blikkandi ljós fyrir aftan mig. Það er ekkert grín ef sjúkrabíll þarf nauðsynlega að komast fram úr manni, það er ekkert pláss til að víkja til hliðar.

Í janúar fóru að meðaltali 4.425 bílar yfir Hellisheiði á dag. Að meðaltali á síðasta ári voru það 6.106 bílar á dag. Það er gríðarlegur fjöldi. Í slæmum veðrum og vindum þegar hálka er mikil er gríðarlega erfitt að keyra þar í gegn.

Ístak er með í sínum verkahring að tvöfalda veginn í Kömbunum yfir í 2+2 akreinar sem er mjög þarft verk. Ístak vinnur einnig að því að gera Hellisheiði að 2+1 vegi með aðskildum akstursreinum alla leið. Það er frábært að vinna í því að gera Hellisheiðina betri yfirferðar. Hins vegar væri hræðilegt ef Hellisheiði mundi enda eins og Svínahraunið. Það er rétt hægt að ímynda sér hvað yrði ef kaflinn verður einungis með eina akrein þegar skilrúmið er komið á milli eins og sjá má í Svínahrauni, sem er að mínu mati alveg hræðilegt, sér í lagi þegar lögreglubíll eða sjúkrabíll keyra fyrir aftan mann með blikkandi ljós.

Ég hvet umhverfis- og samgöngunefnd til að fara yfir þessi mál og koma því í umræðu að Svínahraunið og Hellisheiðin verði gerð með tvöföldum akreinum í báðar áttir.