143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[15:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda þessa umræðu sem hefur staðið með nokkrum hléum í allnokkurn tíma en tók verulegan kipp í síðustu viku eftir fund Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna, í Valhöll. Ég var einn af frummælendum á þeim fundi og átti þar málefnaleg skoðanaskipti við aðra framsögumenn og fræðimenn. Ég hef einnig rætt þetta við fulltrúa þingflokks Pírata sem hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga og fyrir allt þetta vil ég þakka.

Spurningin sem varpað var upp á fundi Heimdallar í síðustu viku var: Er refsistefnan að virka?

Það er örugglega dálítið persónubundið hvernig svarið við þeirri spurningu verður. Eini raunhæfi mælikvarðinn sem ég get lagt á það er sá að árið 1997 samþykktu ríkisstjórn Íslands og Reykjavíkurborg stefnumörkun sem bar yfirskriftina Vímuefnalaust Ísland árið 2002. Í ljósi slíkrar stefnumörkunar, og þeirra tækja sem nýtt hafa verið til þess að ná henni fram, er í mínum huga algjörlega augljóst að við verðum að ræða allar mögulegar nálganir að því að vinna betur bug á þeirri ógn sem steðjar að íslensku samfélagi vegna vímuefnanotkunar og taka þá umræðu opinskátt, heiðarlega og fordómalaust. Okkur ber einfaldlega að ræða allar mögulegar leiðir, hvort heldur það er lögleiðing fíkniefna, það sem hefur verið kallað afrefsivæðing eða afglæpavæðing, hversu vitlegt sem það orð er nú, eða herta löggjöf. Þetta eigum við bara að taka til umræðu.

Það er alveg öruggt, í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum frá lögreglunni um fíkniefnabrot, að vandinn vex frá ári hverju. Í ágætri úttekt Hólmfríðar Gísladóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu, síðustu tvo til þrjá daga kemur ágætlega fram hver þróunin er.

Þar segist lögreglan — og ég er ekkert að draga úr hennar störfum, hún hefur unnið sitt verk mætavel — leggja mesta áherslu á að koma í veg fyrir innflutning fíkniefna, sölu og dreifingu og framleiðslu þeirra. Hins vegar slæðist með, eins og sagt er, einstaka aðilar sem teknir eru í rassíum fyrir vörslu eða meðferð fíkniefna. Þegar maður skoðar síðan samsetningu brotanna voru þessi brot 1.725 á árinu 2013, þ.e. sem slæðast með í aðgerðum lögreglunnar.

Fíkniefnabrotum hefur fjölgað ár frá ári frá 2009, úr 883 upp í 1.725 á síðasta ári, þrátt fyrir yfirlýsingu ríkisstjórnar og stærsta sveitarfélags landsins á árinu 1997.

Ég spyr: Ætlum við að horfa upp á þetta ganga með þessum hætti? Mitt svar er afdráttarlaust í þeim efnum: Nei, við getum það ekki, við eigum ekki að gera það og okkur ber siðferðisleg skylda til að leita allra leiða til að taka betur á í þessum efnum.

Í mínum huga á umræðan að snúast um það hvort unnt sé að nýta fleiri leiðir til að takast á við þetta vandamál en við höfum þegar haft. Ég tel þá leið sem hér hefur verið uppi, um það að taka til umræðu afnám refsingar fíkla, skilyrðislaust eina þeirra sem við eigum að ræða og einhenda okkur í að taka dýpri umræðu um. Það er alveg ljóst, og ég ætla að styðjast meðal annars við álit afbrotafræðings og prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands, Helga Gunnlaugssonar, sem hefur sagt, með leyfi forseta:

„Þessi refsistefna hefur margvíslega galla eins og þann að krakkar sem ekki eru í öðrum brotum geta lent í klóm réttvísinnar og á sakaskrá sem getur haft afleiðingar fyrir þau í framtíðinni.“

Með öðrum orðum ber sú stefna og þær aðferðir sem við beitum í dag í sér að við getum hneppt ungt fólk í gildru. Ef við berum ekki gæfu til að losa það úr þeirri sömu gildru, hvort heldur með breytingum á löggjöf eða styrkingu meðferðarúrræða, tel ég okkur ekki vanda okkar vaxin.

Ég einhendi mér því í það að (Forseti hringir.) taka þetta mál til umræðu. Ég hlakka til að heyra þá umræðu sem hér mun eiga sér stað um þetta mikilsverða mál í dag og kem svo aftur hingað í lokin.