143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[15:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir að hefja þessa þörfu umræðu og þakka honum og hæstv. ráðherra fyrir mjög málefnalegan málflutning. Ég er sammála því sem kom fram í máli þeirra. Ég vil þó taka fram að ég er á þessari stundu ekki tilbúin til að segja mig hlynnta lögleiðingu fíkniefna en ég tel stefnu okkar í málaflokknum algjörlega óviðunandi.

Ég tel að það sé mikilvægt að við endurskoðum refsistefnu vegna neyslu og bjóðum fíkla velkomna í samfélag okkar hinna og sýnum mannúð með þeim hætti. Óbreytt stefna heldur stórum hópi fíkla í klóm glæpamanna og við getum ekki boðið upp á slíkt. Með því að hefja vinnu við að endurskoða refsistefnu erum við ekki að leggja blessun okkar yfir neyslu eiturlyfja en við erum að segja að við lítum á fíkn sem félagslegt og heilbrigðislegt vandamál.

Ég veit að þetta er mjög umdeilt málefni. Ég er sjálf íhaldssöm þegar kemur að þessu en ómannúðlegar refsingar eru ekki í anda þess sem Ísland á að standa fyrir. Gott dæmi um það er ung erlend kona sem var í héraði í lok síðasta árs dæmd til árs fangelsisvistar fyrir að hafa verið neydd til að flytja kókaín í leggöngum sínum hingað til lands. Íslensk refsilöggjöf er þannig úr garði gerð að við settum hana í fangelsi í ár. Nú geri ég ráð fyrir að málinu hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar og þar er ekki komin niðurstaða en þetta er gott dæmi um það (Forseti hringir.) hvernig sú stefna sem hér er í þessum málaflokki (Forseti hringir.) bitnar á fólki sem sannarlega er fórnarlömb. (Forseti hringir.) Ég tel mjög jákvætt að við getum sammælst um það hér að endurskoða þá stefnu.