143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir augljóst af málatilbúnaði hv. þingmanns að hann hefur ekki kynnt sér skýrsluna. Kannski er tíminn of naumur, ég veit það ekki. Ég hvet þingmanninn til að kynna sér skýrsluna. Þar fær hann mörg svör við því sem hann er að spyrja um. (Gripið fram í.)

Mig langar hins vegar að kalla eftir því að hv. þingmaður upplýsi um það hvernig í ósköpunum hann veit hvað Evrópusambandið ætli að bjóða okkur. Það kemur fram í ræðu hv. þingmanns. Hann segir: Ég veit að ESB mun bjóða sérlausn. Ég hef ekki séð þá sérlausn. Hún er ekki til í utanríkisráðuneytinu. Hún hefur hvergi verið lögð fram. Ég veit ekki hvaðan hv. þingmaður hefur þetta. Það hefur reyndar alltaf verið þannig með hv. þingmann og hans ágæta flokk að það hefur ekki skipt neinu máli hvað er í boði hjá Evrópusambandinu. Þangað skal gengið inn. Þess vegna held ég að það sé ágætt að hv. þingmaður kynni sér skýrsluna vandlega. Þá sér hann að rök hans og sú ræða sem hann hélt hér er alveg út úr kú.