143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man nú ekki eftir að hafa talað þannig að Evrópusambandið væri lausn allra mála og ég held að það hafi ekki birst þannig til að mynda í áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem við lögðum fram, af því að hæstv. ráðherra nefnir hana sérstaklega. Við bíðum enn eftir nýrri áætlun núverandi hæstv. ríkisstjórnar um afnám gjaldeyrishafta sem átti að birtast hér í september, þannig að ég verð bara að gera athugasemd við það, mér finnst þetta vera tilraun hjá hæstv. ráðherra til að draga úr því mikla verki sem hér var unnið á síðasta kjörtímabili.

En gott og vel. Hvað varðar verkbeiðnina þá óska ég eftir svörum hæstv. ráðherra um hana.