143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðgerðir og biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[10:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að lesa yfir drög að svari til hv. þingmanns við þeirri fyrirspurn sem hann ber fram þannig að þess er að vænta innan mjög skamms tíma. Við reynum að standa við öll þau tímamörk sem okkur eru sett til svars við slíkum fyrirspurnum.

Varðandi umræðuna um biðlistana vil ég taka sérstaklega fram að hún er á stundum dálítið villandi. Mínar upplýsingar herma að öllum bráðatilvikum á hvaða sviði sem er sé sinnt fljótt og vel en biðlistinn sé í raun samsettur af aðgerðum sem fagfólk okkar í heilbrigðisþjónustunni metur fært um að bíða. Ástæða er til að undirstrika það í umræðu um biðlista að íslenska heilbrigðiskerfið sinnir öllum þeim bráðatilvikum sem kunna að koma upp.