143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á ég að skilja orð hv. þingmanns þannig að Evrópusambandið hafi verið búið að lofa þúsund ára sérlausn fyrir Ísland í sjávarútvegsmálum? Ég skil ekki þetta komment.

Ef makríllinn kom ekki fyrr en í lok árs 2010 hvað var verið að gera á þeim tíma sem leið frá því að aðildarumsóknin fór út og þangað til? Þá var fullyrt hér að samningaviðræður okkar mundu taka mjög skamman tíma. Það var verið að reyna að sannfæra íslensku þjóðina um að það væri í lagi að fara í allt þetta umstang vegna þess að það mundi taka skamman tíma og menn mundu fljótt fá svör við því hvað væri í pakkanum.

Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að reyna að draga einhvern lærdóm af því ferli sem hér átti sér stað á síðasta kjörtímabili, er það ekki rétt? Það er það sem við höfum tilhneigingu til að gera í þinginu þegar fram koma skýrslur. Er það ekki samdóma álit okkar beggja að það hefði verið betur farið af stað með sterkari grunn, að það hefði betur farið á því að samþykkja tillögu okkar sjálfstæðismanna um að fara þá í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort leggja ætti af stað, sérstaklega í ljósi þess að annar stjórnarflokkurinn var á þeirri skoðun að við ættum ekki að ganga í Evrópusambandið, a.m.k. miðað við það sem hann sagði í kosningabaráttunni árið 2009?

Verðum við ekki að horfast í augu við staðreyndir og reyna að miðla þeim lærdómi sem við getum dregið af mistökum okkar til þeirra sem á eftir okkur koma, til þess að menn lendi ekki aftur í þeirri stöðu að fara af stað í að gera einhvers konar bjölluat hjá okkar ágætu frændum úti í Evrópu, eins og fyrrverandi ríkisstjórn lét hafa sig út í og stóð fyrir á síðasta kjörtímabili?