143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður eigi að taka þetta atriði upp á flokksþingi Framsóknarflokksins vegna þess að það var einu sinni fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, sem útfærði þessa hugmynd, sem útfærði þessa tillögu, útfærði þetta samningsmarkmið.

Virðulegi forseti. Mér finnst ekki boðlegt hvernig hv. þingmaður leggur málin hér upp. Nú ætla ég að taka svolítið upp takta hans eigin formanns og segja að mér finnst forsendur þessarar spurningar afar sérkennilegar. Það er alveg hægt að taka eitt og eitt út og vitna í einn og einn, en niðurstöðuna færðu aðeins í aðildarviðræðum og samningsviðræðum. Þú færð hana einungis þannig. Það er alveg rétt að það eru einstaka þættir … (Forseti hringir.) Ég var ekki að tala til hv. þingmanns, ég var að tala almennt þegar einstaklingur fer og reynir að sækja sér niðurstöðu.

(Forseti (ValG): Gott.)

Niðurstaðan fæst eingöngu þannig. Hún fæst ekki í karpi milli mín og hv. þingmanns hér eða milli mín og hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur eða milli mín og hv. þm. Birgis Ármannssonar. Hún fæst í niðurstöðu aðildarviðræðna.

Ég er ekki tilbúin til þess að standa hér og ræða við hv. þingmann um einstaka liði í sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, hvort við fengjum hugsanlega undanþágu frá henni eða hvort hún væri í lagi fyrir okkur í stóra samhenginu sem við fengjum út úr sérlausninni hvað varðar Ísland, eða hvort hún væri jafnvel í lagi fyrir okkur af því að við værum aðilar að Evrópusambandinu og hefðum þá kannski eitthvað um málin að segja og það hvernig málum lyktir þar innan húss gagnvart Íslandi. Allt þetta, allt stóra samhengið verðum við að sjá og það gerum við aðeins með því að ljúka aðildarviðræðunum.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað óttast hann í því máli að leggja tilbúinn samning undir þjóðina? Hvað óttast hann? Ég heyri ekki betur á málflutningi (Forseti hringir.) hv. stjórnarliða en að þeir séu drifnir áfram af slíkum ótta að maður þarf kannski að fara að gera fyrirvara til að reyna að (Forseti hringir.) draga úr þessari hræðslu við nágrannaríkin.