143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:26]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti Ég þakka spurninguna því ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum málin út frá þessu. Við eigum að skipta landbúnaðarumræðunni í þessu samhengi í tvo hluta. Það er sannarlega hægt að segja að landbúnaðarstefnan hafi tvær meginstoðir, önnur er framleiðsluhlutinn og markaðsvæðing framleiðslunnar, ef við getum orðað það svo, og markaðstilskipanir og hin er byggðaþátturinn. Nú er það svo að við höfum að mjög takmörkuðu leyti innleitt byggðasjónarmið í búvörusamninga okkar. Búvörusamningarnir eru hins vegar alger forsenda þess að það sé byggð í sveitum, en við fjöllum ekkert um það sérstaklega, ég vil miklu frekar orða það þannig að við fjöllum frekar ómarkvisst um það í samningunum. Við mættum gera betur í því og við mættum líka læra mjög margt af byggðaaðgerðum Evrópusambandsins. Það er ekkert hvítt og svart í þeim efnum.

En grundvallaratriðið er þetta og það vil ég að menn átti sig á. Eftir að Evrópusambandið breytir landbúnaðarpólitík sinni upp úr árið 2003 verða skil. Það breytir CAP-landbúnaðarstefnunni, fer í að flytja stuðninginn frá framleiðslunni þ.e. frá framleiddum mjólkurlítra og kílói af nautakjöti og hvað þetta allt saman er, yfir í að greiða fyrir landið. Það verða þau skil að stuðningurinn tengist ekki lengur framleiðslunni. Bændurnir máttu gera nánast það sem þeir vildu á jörðum sínum. Það var meginhugsunin. Auðvitað settu ríkin sérstakar reglur um það. En afleiðingin varð sú, og það skulum við ræða, að hlutur bænda í búvöruverðinu hefur frá þeim tíma dregist verulega mikið saman. Vöruverðið hefur ekki að sama skapi lækkað til evrópskra neytenda en milliliðirnir á milli bændanna og neytendanna hafa stórbætt sinn hlut.