143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:52]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að biðjast afsökunar á að hafa vaðið í ræðustól í gær án þess að vera kynnt þannig að forseti áminnti mig. Ég gleymdi að biðjast afsökunar þá en geri það hér með.

Mig langar að spyrja hv. þm. Vilhjálm Bjarnason hvort ég hafi heyrt rétt. Nú hefur þessi skýrsla komið upp í umræðunni hérna — og hvað svo? Mér fannst hv. þingmaður segja að þessi skýrsla væri lögð fram til umræðu en ekki til að vera eitthvert gagn til þess að það yrði síðan notað til að taka einhverja ákvörðun í framhaldinu.

Ég er ekki alveg klár á því hvort ég heyrði rétt. Það skiptir mjög miklu máli að það sé nokkuð ljóst hvað stjórnarmeirihlutinn ætlar sér í þessum efnum. Sérstaklega vil ég þá spyrja þingmanninn, sem ég held að sé óþarfi vegna þess að mér fannst það koma fram í máli hans en þingmenn hafa verið spurðir að því hér, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins: Er hann því meðmæltur að þessi umræða leiði til þess að hún klárist ekki fyrr en eftir að utanríkismálanefnd hefur fjallað um skýrsluna?