143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við hljótum að setja stórt spurningarmerki við fundarstjórn forseta vegna þess hvernig þetta mál ber hér að. Þó svo að mál hæstv. utanríkisráðherra um að slíta aðildarviðræðunum sé tekið af dagskrá hér rétt fyrir þingfund þá breytir það engu vegna þess að það birtir með öllu vilja og fyrirætlan þessarar ríkisstjórnar og hvernig hún er búin að tryggja það að forseti mun fylgja ríkisstjórninni í þessu máli í stað þess að vera forseti alls þingsins eins og hann er kosinn til. Það birtir okkur það.

Virðulegi forseti. Að jafnstórt mál hafi ekki verið borið undir þingflokksformenn hvað varðar undirbúning dagsins í dag er fyrir neðan allar hellur. Spurning mín til hæstv. forseta er þessi: Ætlar hann að leyfa þingmönnum að fjalla almennilega um skýrsluna sem hér hefur verið kynnt og er enn þá til umfjöllunar? Eiga þingnefndir að fá að fara yfir hana áður en tillaga hæstv. utanríkisráðherra verður sett aftur á dagskrá? Ég vil spyrja hæstv. forseta að því.