143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Á einhverjum tímapunkti í þessu ferli öllu kviknaði hugmynd í höfði hæstv. fjármálaráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem ber nafnið ómögulegheit við að framkvæma eigin hugmynd og eigin orð, þ.e. að sú staða gæti komið upp að hann gæti þurft að framkvæma vilja þjóðaratkvæðagreiðslu sem væri gegn hans eigin stefnu, hans eigin skoðunum. Það er ómögulegt, það er algerlega útilokað vegna þess að auðvitað skiptir skoðun hæstv. fjármálaráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins, meira máli en niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hann skilur ekki hvað felst í því að vera í þjónustu almennings. Þess vegna fer þessi atburðarás af stað hér. Þess vegna kemur hv. þm. Birgir Ármannsson fram og segir: Ef til vill hefðum við átt að orða þetta öðruvísi, þetta kosningaloforð sem við vorum með í síðustu kosningum. Þá værum við ekki að svíkja það núna, á hann væntanlega við. (Gripið fram í.)

Hvaða atburðarás fór í gang í síðustu viku? Hvenær var sú þingsályktunartillaga skrifuð sem var lögð hér fram og dreift á föstudaginn? Var hún skrifuð í hádeginu á föstudaginn? Mér sýnist töluvert meiri vinna hafa verið lögð í hana. (Forseti hringir.) Umræðan um skýrsluna í síðustu viku var ekkert annað en leiksýning. Það sem við erum að verða vitni að hér er framhald af þeim farsa sem boðið er upp á.