143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

samkeppnishæfni Íslands á sviði gagnahýsingar.

[16:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég hef verið að ganga á milli þessa dagana og vikurnar og skoðað hvernig hægt er að efla atvinnulífið með internetinu. Það er nokkuð ljóst að Ísland er gríðarlega vel staðsett þegar kemur að því að hýsa alþjóðagagnaver. Þetta er markaður sem The Economist talar um að muni vaxa um 30% eða að „big data“, stór gögn, ef við þýðum beint, muni vaxa um 30% á næstu árum. Það er fyrirséð að það mun halda áfram að vaxa mjög hratt umfram það.

Einhvers staðar þarf að hýsa þau gögn og Ísland er mjög vel staðsett til þess að hýsa gögnin. Það sem er mikið horft til upp á langtímasamkeppnisfærni er náttúrlega sparnaður, það er verðstöðugleiki, það er aðgengi að orku, sem er gott á Íslandi, líka til lengri tíma, og það er að lágmarka áhættuna. Ísland uppfyllir öll þau skilyrði og þetta hefur verið tekið saman.

Það sem ég geri er að fara á fundi hjá hagsmunaaðilum. Ég hitti framkvæmdastjóra Farice nýlega og spurði hann bara: Hvað er hægt að gera, hvað er það fyrsta og það mikilvægasta sem hægt er að gera núna til þess að flýta fyrir og styrkja samkeppnisstöðu Íslands sem staðar til að hýsa alþjóðleg gagnaver?

Ég spurði hann hvort það þyrfti lagabreytingu, einhverja reglugerðarbreytingu og hann sagði: Líklega ekki. Ríkisskattstjóri hefur skilgreint það svo að ef erlendir aðilar setja upp tölvuþjón eða „server“, með leyfi forseta, á Íslandi þurfa þeir að stofna fyrirtæki í kringum það, fyrirtæki skipað með stjórn, ráða lögfræðinga til þess að fara í gegnum allt lagaumhverfið o.s.frv. Þetta er því mjög óþjált. (Forseti hringir.) Ef það væri hægt að koma þessu af stað, og svo þegar menn stækka þurfa þeir ekki að uppfylla þessi skilyrði aftur, mundi það auka samkeppnishæfi Íslands mjög mikið. (Forseti hringir.) Mig langar að athuga hvort hæstv. ráðherra sé búinn að skoða þetta. Hvernig getum við flýtt þessu máli?