143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef gluggað í skýrsluna nokkuð mikið og mér finnst ég vera styrktur í því að engar varanlegar undanþágur eða sérlausnir sé að fá. Ég er styrktur í því, aðrir trúa því ekki. Spurningin er sú hvort þjóðin trúi því eða ekki eftir þessa skýrslu.

Ég held að þó að menn tali um einhvern ídealíseraðan heim þar sem menn geti unnið gegn sannfæringu sinni, það getur vel verið að hv. þingmaður geti það. (Gripið fram í.) Þó að hann sé hjartanlega á móti því að ganga í Evrópusambandið að þá muni hann samt sem áður vinna að því að Ísland gangi í Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Þetta er nokkuð sem ég kalla að menn hafi veika sannfæringu (Gripið fram í.) og það er ekki gott. Það er ekki gott þegar menn hafa ekki sterka sannfæringu sem stjórnmálamenn því að eitt aðalsmerki stjórnmálamanna er að hafa sannfæringu. Síðan getur fólk verið sammála þeirri sannfæringu eða ekki og kosið þann mann eða einhvern annan. En að vera sannfæringarlaus og geta farið í það að semja um aðild Íslands að Evrópusambandinu, þó að þeir vilji ekki að það gangi þar inn, gef ég ekki mikið fyrir.