143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við sjálfstæðismenn bentum á það sumarið 2009 að það væri mikið óráð og feigðarflan að fara af stað með þessa umsókn eins og gert var með klofið þing og klofna ríkisstjórn, það mundi aldrei ganga vel.

Hinir sem sögðu nei við slíkri atkvæðagreiðslu töldu að þessir samningar mundu klárast á örfáum missirum. Það kom í ljós að það var rangt og eitt af því sem skipti svo miklu máli var að það var engin pólitísk samstaða um hvernig ætti að halda á þessum málum af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Vegna þess hvernig málið er til komið tel ég rétt, að vel athuguðu máli, að umsóknin sé dregin til baka og komi síðan til þess að hér myndist annar þingmeirihluti sé aftur hægt að sækja um aðild. Þá segi ég hins vegar líka að ég held að það sé skynsamlegt, þrátt fyrir að það sé meiri hluti í þinginu við slíkar aðstæður ef það myndast, að þá yrði líka farið til þjóðarinnar og hún spurð hvort hún vilji fara af stað í slíka vegferð.

Það verður nefnilega að horfa til upphafs þessa máls og þeirra mistaka sem voru gerð (Forseti hringir.) þegar ákveðið var að verða ekki við kröfu okkar sjálfstæðismanna um að spyrja þjóðina álits áður en af stað var farið.