143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, við hv. þingmaður erum ekki sammála um hvort hag okkar sé betur borgið innan eða utan ESB. Mér sem landsbyggðarþingmanni, hafandi verið í sveitarstjórnum úti á landi, hefur þótt nógu erfitt að sækja ýmsa þætti til stjórnsýslunnar á höfuðborgarsvæðinu, hvað þá heldur ef fara þyrfti yfir Atlantshafið og til Brussel til að sækja ýmis réttlætismál. En það er önnur saga.

Varðandi meðferðina á þessari skýrslu er það fyrir neðan allar hellur hvernig hæstv. ríkisstjórn fer fram úr sér í bægslagangi. Manni finnst eins og verið sé að spóla aftur á bak og maður sé að missa úr einhverju í tíma og aðrir séu komnir miklu lengra en maður sjálfur í þessu máli. Maður er eiginlega ekki að tala fram á við, því að búið er að ákveða eitthvað sem átti að ákveðast í framhaldi af umræðu og þinglegri meðferð á þessari skýrslu, en menn eru bara komnir miklu lengra en það hjá hæstv. ríkisstjórn.