143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að gera athugasemd við hæstv. utanríkisráðherra, að leyfa sér að koma hingað inn og tala með þessum hætti. Hér hafði nýlokið máli sínu hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sem veit flestum þingmönnum hér inni meira um Evrópusambandið og hélt ákaflega efnismikla og góða ræðu. En við erum að ræða skýrslu sem á að vera grundvöllur til ákvarðanatöku um framhald á aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema hvað ríkisstjórnin er búin að taka ákvörðun fyrir meiri hlutann hér á þingi og leggja fram þingsályktunartillögu. En ég vil taka undir ósk hv. þm. Kristjáns L. Möllers um að báðir ráðherrar séu hér, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra, því ef þeim tekst með offorsi að þvinga þessa tillögu sína á dagskrá síðar, þvert ofan í ýmsar skýrslur og álit, þá er efnahagsstefna Íslands ekki mikils virði til framtíðar. Það er þá rétt að fjármálaráðherra sé hér til að geta átt við okkur samræður um hvað (Forseti hringir.) hann sér fyrir sér.