143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:28]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mjór er mikils vísir. Með nýjum meiri hluta í þinginu erum við að verða vitni að öfgafyllri og andlýðræðislegri vinnubrögðum en áður, nú síðast með því að samkomulag, um dreifingu skýrslu og umræðu um hana, hefur verið þverbrotið.

Ég vil inna forseta eftir því hvernig hann hyggst taka á því að meiri hlutanum í þinginu sé afhent plagg í tölvupósti fyrir umsaminn tíma á meðan við í minni hlutanum sækjum það inn á vefmiðla landsins daginn eftir. Hver sem lak skýrslunni, eða hvernig sem því var háttað, þá getum við í minni hlutanum ekki liðið það að vera meðhöndluð á þennan hátt. Við erum fulltrúar fyrir tæplega helming kjósenda þessa lands og það má ekki fara svona með þá fulltrúa. (Forseti hringir.) Við erum hér í fulltrúalýðræði og við erum fulltrúar fyrir (Forseti hringir.) ákveðin sjónarmið (Forseti hringir.) sem hafa að engu verið höfð og ég vil heyra hvernig hæstv. forseti hyggst bregðast við því.