143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum gerði Landsvirkjun opinbera ársreikninga sína eða niðurstöður fyrir rekstrarárið 2013. Þar kemur fram að þrátt fyrir meiri raforkusölu en nokkru sinni, eða 13.186 gígavattstundir, sem sagt sölu sem er 416 gígvattstundum meiri en á fyrra ári, og áfallalausan rekstur nánast að öllu leyti varð 38,5 milljón dollara tap á rekstri fyrirtækisins, eða tæpir 4,4 milljarðar íslenskra króna. Skýringin sem er gefin er einföld; vegna lægra eða lágs álverðs, „due to low aluminium prices“, eins og stendur í ensku útgáfunni, herra forseti.

Staða Landsvirkjunar væri enn verri og sennilega tap svo næmi tug milljarða ef ekki meira ef ekki hefði komið til á síðasta kjörtímabili endurskoðun á raforkusölusamningi til Rio Tinto Alcan í Straumsvík þar sem horfið var frá tengingu álvers og veruleg hækkun á raforkuverði var tryggð með hækkun á bandarísku neysluverðsvísitölunni. Það væri fróðlegt að vita hvort þessi niðurstaða vekur einhverja til umhugsunar um framhaldið, hversu gáfuleg sú áhersla er sem núverandi ríkisstjórn er með uppi að vilja endilega byggja fleiri álver, hafa enn fleiri egg í sömu körfu. Vissulega væri gott ef hér væri til staðar til dæmis hv. þm. Jón Gunnarsson sem öðrum mönnum fremur virðist trúa því að álið sé málið, eða hæstv. iðnaðarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir. Þau hafa að sjálfsögðu tækifæri til að tjá sig um þetta hér á þingi einhvern tímann í framhaldinu.

Ég tel að meðal annars þessi niðurstaða, sem sýnir svart á hvítu hversu illa við erum tryggð gagnvart þeirri miklu orkusölu sem fer til álveranna, stóriðjunnar, og hversu lítinn arð íslenska þjóðin hefur af þessum orkuauðlindum sínum, gefi fullt tilefni til að taka þau mál hér upp (Forseti hringir.) og til endurskoðunar.