143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Eftir því sem við fengum fréttir af fór sú tillaga sem er á dagskránni í dag, um að draga til baka umsókn um aðild að ESB, fyrst fyrir ríkisstjórn og þaðan inn í þingflokkana, a.m.k. segja heimildarmenn mér það úr þingflokkunum.

Ástæðan fyrir að ég kem hér upp undir liðnum um fundarstjórn forseta er að mig langar að heyra frá hæstv. forseta: Hefur hæstv. forseti einhvern tímann efast um að menn í þingsal eða hv. þingmenn greiddu atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni? Hefur það komið til á þingferli hans, sem er mun lengri en minn þingferill, að menn hafi hreinlega staðið hér og brigslað þingmönnum um að brjóta stjórnarskrá? Mér finnst það skipta miklu máli vegna þess að það er það sem málið snýst um. Menn geta talað um að það eigi að ræða skýrslu. Þetta er miklu stærra mál en það. Það er þannig að maður er stimplaður hér, sagður hafa staðið undir byssukjöftum eða þvingunum og hótunum sem hafi orðið til þess að hér var samþykkt þingsályktunartillaga um aðildarumsókn 33:28 og að þar hafið þingið verið neytt til að samþykkja. (Gripið fram í.) Þetta gengur auðvitað ekki upp. Ég held að hæstv. forseti verði að taka það til umræðu og líka kveða upp úrskurð í hvert einasta skipti sem atkvæðagreiðsla fer hér fram um hvort atkvæðagreiðslan hafi farið fram án þess að beitt hafi verið þvingunum eða hótunum sem gerir hana ómarktæka einhvern tímann síðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)