143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Hún fór ágætlega yfir það hversu mörgum er illa brugðið við það að menn skuli fara svona skarpt fram, sérstaklega í ljósi kosningaloforða, þó að þetta sé ekki eina málið sem ríkisstjórnin er að svíkja. Það er verið að gera, hvað skulum við segja, 300 milljarðana sem átti að sækja til hrægammanna, að 72, sem koma í gegnum skattkerfið. Við vitum líka hvernig fór með afnám verðtryggingar. Þar virðist ætla að fæðast enn ein músin hjá ríkisstjórninni. Menn virðast hafa verið tilbúnir til að segja allt og gera allt til að komast til valda. Það er svo sem ekki nýtt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að ég veit að hún hefur lesið skýrsluna vel. Ég sé það nefnilega ekki í henni hvers vegna núverandi ríkisstjórn ákveður áður en blekið á skýrslunni er þornað og þingið er rétt byrjað að fjalla um hana — ég veit hvernig það virkar þegar komið er með mál fyrir ríkisstjórn, það þarf að skila þeim inn daginn áður, þannig að þessi tillaga hefur verið tilbúin um miðjan dag á fimmtudag. Það þýðir að mönnum hefur verið alveg sama um skýrsluna eða þá að eitthvað hefur verið í henni sem hefur kallað á það að menn hafi með hraði þurft að taka ákvörðun út af einhverju aðkallandi máli sem skýrslan hefur dregið fram að slíta þessum viðræðum, sem gengur síðan miklu lengra en stjórnarsáttmálinn og landsfundasamþykktir beggja flokka. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að gert verði hlé á aðildarviðræðum. Það er allt annað mál en að slíta þeim. Og í hvorugri landsfundarsamþykktinni er fjallað um að slíta viðræðum. En eitthvað hlýtur að vera í skýrslunni sem þeir hafa séð á undan okkur hinum, vegna þess að við fengum hana seinna en þeir, sem gerir það að verkum að tekin er þessi skyndiákvörðun og neyðarákvörðun að því er virðist.