143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:50]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að segja það en ef ég sæti í forsetastól núna mundi ég skilyrðislaust og tvímælalaust slíta þingfundi.

Hér hefur hæstv. utanríkisráðherra komið og sagt að hann sjái að sér vegna þeirrar sóðalegu greinargerðar sem fylgir tillögu hans og þeirrar ríkisstjórnar sem hann situr í. En því miður er það frammíkall sem hann gerði hér til hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar algjörlega fyrir neðan virðingu Alþingis. Ég ætla að leyfa mér að skrifa það á þreytu hæstv. ráðherra og álagið sem á honum er.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki hægt. Ég legg til að þingfundi verði slitið svo hæstv. utanríkisráðherra geti hvílt sig, unnið upp nýja greinargerð og sýnt okkur hana á morgun þannig að við getum haldið áfram umræðum.

Virðulegi forseti. Ef við gætum farið frá þessari (Forseti hringir.) vitlausu tillögu hygg ég að fleiri þingmenn stjórnarinnar gætu komið hér og haldið jafn efnismiklar og góðar ræður eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerði hér áðan, sem var algjörlega til (Forseti hringir.) fyrirmyndar, og það vantar okkur hér á Alþingi að heyra í stjórnarþingmönnum hvað þeim finnst um þessa skýrslu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)