143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[22:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kom hér upp áðan og óskaði eftir því að hæstv. ráðherra bæðist afsökunar á þessum orðum. Það er ekki nóg að taka út orð úr þingsályktunartillögu og greinargerð sem eru vítaverð, það er eðlilegt að biðjast afsökunar á þeim.

Hæstv. utanríkisráðherra vakti síðan með þingheimi verulegar efasemdir um að hann sé bara í húsum hæfur eins og staðan er miðað við þau tilsvör sem hann hafði hér við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Þetta voru vítaverð ummæli og ég skil ekki alveg hvers vegna hæstv. forseti vítir ekki ráðherrann fyrir ummælin, það er full þörf á því. Það er auðvitað ekki hægt að bjóða þingheimi upp á hvað sem er. Ríkisstjórnin hefur gengið fram af fruntaskap í þessu máli. Við höfum margboðið upp á leiðir til samtals, samvinnu og sátta og það er slegið á hverja útrétta höndina á fætur annarri. Svo (Forseti hringir.) gengur hæstv. utanríkisráðherra fram með ásökunum af þessu tagi, sem eru algjörlega óboðlegar, vítaverðar, (Forseti hringir.) og við hljótum að gera kröfu um að forseti þingsins fylgi reglum þingsins og víti ráðherra.