143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér finnst forseti hafa gengið mjög langt í því að leyfa efnislega umræðu um þessa tillögu sem snýst fyrst og fremst um dagskrána. Ég tek eftir því að hér í umræðunni taka þátt þingmenn sem mæltu fyrir frumvarpi fyrir ekki löngu síðan, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, sem lögðu á sínum tíma ásamt öðrum þingmönnum fram frumvarp um að ekki væri hægt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum. Það er breyting á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna sem var samþykkt í þinginu á síðasta kjörtímabili. Það er ekki hægt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum samkvæmt frumvarpi sem þessir sömu þingmenn lögðu fram á þinginu og fengu samþykkt. Þannig standa lögin í dag, þetta hefur að gera með kjörskrána.

Fyrir mér er það óútskýrt hvers vegna þessir hv. þingmenn vilja nú endilega fá á dagskrá þessa tillögu. Þeir ásamt með mörgum öðrum þingmönnum, m.a. úr Sjálfstæðisflokknum, lögðu fram þetta frumvarp á sínum tíma(Forseti hringir.) og eftir meðferð í utanríkismálanefnd þar sem hv. þm. Róbert Marshall var formaður mælti (Forseti hringir.) hann fyrir nefndaráliti þar sem möguleikinn (Forseti hringir.) til að framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum (Forseti hringir.) var felldur sérstaklega út úr lögunum. Mér fannst rétt (Forseti hringir.) að benda á þetta fyrst við erum komin hér út í efnislega umræðu.(Gripið fram í.)

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra um að gæta tímamarka.)