143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Árni Páll Árnason segir. Það er mjög mikilvægt fyrir framvindu þeirrar umræðu sem nú er að hefjast framhaldið á að við vitum hvert umræðan á síðan að fara, í hvaða farveg. Formaður utanríkismálanefndar kom hingað í ræðustól fyrr í umræðunni og taldi þá rétt að nefndin tæki málið til efnislegrar umfjöllunar, en hversu mikillar, hvað stendur til, hver á afurðin að verða og hvert á hún að fara o.s.frv? Þetta liggur ekki fyrir.

Ég vil benda á að við eigum góð fordæmi hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni sem fór vel með frumvarp um afturköllun náttúruverndarlaga og tók það með myndugleik til afgreiðslu inn í umhverfis- og samgöngunefnd. Við höfum því ágætisfyrirmyndir hér í þinginu (Forseti hringir.) og það á þessu þingi, þar sem formenn nefnda gefa mjög skýrt til kynna mikilvægi þingræðisins í framvindu mála.