143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir þetta andsvar og ég er bara ánægður með að hann ljær máls á því að málið fái vandaða umfjöllun í utanríkismálanefnd þó að hann sé ekki reiðubúinn að segja það hér og nú nákvæmlega með hvaða hætti það er.

Ég að sjálfsögðu treysti því að hv. formaður nefndarinnar reyni að ná sem allra breiðastri og helst algerri samstöðu um það í nefndinni með hvaða hætti málið verður unnið, til hvaða aðila verður leitað með umsagnir, hvaða gestir verða fengnir og hvaða tímaramma menn setja sér varðandi vinnuna. Það kunna að verða uppi ólík sjónarmið um það en ég held að það væri afar þakkarvert ef formaður nefndarinnar legði sig alla vega fram um að reyna að ná saman nefndinni allri um vinnulagið, þó að það kunni, eins og ég segi, að verða ólík sjónarmið í upphafi, að menn leggi eitthvað á sig til að ná samstöðu um það.