143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er engum vafa undirorpið að sjávarútvegurinn er okkar langstærsti atvinnuvegur og það skiptir verulega miklu máli hvernig farið er með hann og sjávarauðlindina. Því var lagt upp með það í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar að gera mjög ákveðnar kröfur eða setja fram ákveðin markmið sem yrðu að nást til þess að það gæti verið ásættanlegt. Ég var að sjálfsögðu alveg sammála þeim og ég tel að sjávarútvegurinn skipti ekki síst máli, forræðið á sjávarauðlindinni og meðferðin á því. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli líka í mínum huga.

Varðandi landbúnaðinn hef ég litið þannig á að þar hafi fyrst og fremst þurft að spyrja þeirrar spurningar: Verður íslenskur landbúnaður betur settur eða verr settur eftir inngöngu í Evrópusambandið ef til hennar kemur? Þar voru sett fram ákveðin markmið í nefndaráliti utanríkismálanefndar. Ég tel að hefðu þau náðst, sem vel kann að vera, og ég tel alls ekki ólíklegt, að þá yrði íslenskur landbúnaður ekki verr settur innan Evrópusambandsins en utan. (Forseti hringir.)

Af öðrum málum bara nefni ég sérstaklega gjaldmiðilsmálin sem ég nefndi (Forseti hringir.) sjálfur áðan í ræðu minni, ég tel að þau skipti líka gríðarlega (Forseti hringir.) miklu máli.