143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það þarf svo sem ekki að ítreka það, en það er ekki bara að hæstv. utanríkisráðherra sé í viðtali, sem ég ber þó virðingu fyrir, hann þarf að tala við þjóðina af og til, er það ekki? Það sem mér finnst aðeins leiðinlegra er að hér eru afskaplega fáir þingmenn stjórnarmeirihlutans, þeir eru tveir, hv. formaður utanríkismálanefndar, og ég þakka honum viðveruna kærlega, og hv. þingmaður Framsóknarflokksins. Þetta er skýrt mynstur. Það eru efnisleg málefni að ræða hérna, í alvörunni, og kannski tæki það ekki þennan gríðarlega tíma ef við gætum rætt málin. En þetta er í miklu samræmi við að skýrslan kom út og strax var komin þingsályktunartillaga um ákveðna niðurstöðu, burt séð frá umræðunni. Það lýsir svolítið því sem virðist vera viðhorf stjórnarflokkanna til Alþingis, þ.e. að þessi umræða skipti engu máli, þetta sé allt saman tímasóun og að við ættum í raun og veru að gera eitthvað allt annað.

Hver veit nema það sé satt, með hliðsjón af því hversu lengi við ætlum að funda í nótt.