143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skildi hæstv. utanríkisráðherra svo að það hefði verið viðtal og blaðagrein sem hefðu ýtt á eftir þessari þingsályktunartillögu og þess vegna væri hún sett með slíkum hraði í gegnum þingið. Ég vil biðja hæstv. utanríkisráðherra að leiðrétta mig ef þetta er ekki réttur skilningur, en jafnframt biðja hann að finna tíma til að svara þeirri spurningu sem ég ber nú fram.

Utanríkismálanefnd Evrópusambandsins samþykkti texta um aðildarumsókn Íslands í nóvember sl. þar sem öllum dyrum var haldið opnum. Þó var ein setning sem var eitthvað á þá leið að auðvitað væri þetta ekki endalaust, það yrðu náttúrlega einhvern tíma að koma lok, en öllum dyrum var haldið opnum með þessari samþykkt utanríkismálanefndar. Hefur Evrópuþingið tekið þessa ályktun fyrir og breytt henni með einhverjum hætti?