143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að við getum farið að tala um Evrópusambandið aftur.

Ég verð að viðurkenna að ég er engan veginn viss um það sjálfur hvort ég vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki, hef kannski aðeins öðruvísi áhyggjur af því en margir aðrir. Áhyggjurnar eru oft um þessi klassísku mál, sjálfstæði landsins og eitthvað þannig. Ég hef aðeins meiri áhyggjur af því að Evrópusambandið þróist út í það að verða hernaðarbandalag og svo er ég ekki einu sinni viss um hvort það sé endilega gott eða slæmt ef ég á að segja alveg eins og er. Það þarf tíminn að leiða í ljós og til þess þarf miklu meiri upplýsingar.

Talandi um upplýsingar þá er ég mikið fyrir að taka upplýstar ákvarðanir. Mér finnst mjög óþægilegt að taka ákvarðanir þar sem ég veit að ég hef ekki fullnægjandi upplýsingar. Við lestur þessarar skýrslu get ég ekki að því gert að finnast ég vera í þeirri stöðu sem er talað um hvað varðar bíómyndir — og ég vona að virðulegur forseti fyrirgefi það, en ég þekki ekki íslensku þýðinguna á hugtakinu „cliffhanger“. Mér líður svolítið eins og þessi skýrsla sé eitthvert „cliffhanger“, að því leyti að mér finnst vanta meira í hana, mig vantar næsta þátt. Ég vil sjá hvað gerist næst en ég sé það ekki. Ég sé ekki hvað gerist næst þegar kemur að landbúnaði né þegar kemur að sjávarútveginum.

Á bls. 137, í liðum 7 og 8, ef ég man rétt, koma fram breytingar eða ný viðhorf sem eru uppi hjá Evrópusambandinu gagnvart sjávarútvegsmálum og hófst sú endurskoðun árið 2009, 13. júlí ef ég man rétt. Hún rímar svolítið, að því er virðist, við hagsmuni Íslands eða þá hagsmuni sem maður hefði haldið að helst væri verið að verja, en það er að halda fiskveiðistjórnarkerfi sem vinnur með því að viðhalda fiskstofnunum en ekki gegn því, eins og svo oft hefur verið tilfellið úti um hina víðu veröld. Jú, því að það er þannig að sjávarútvegurinn skilar hagnaði á Íslandi, það þarf ekki að niðurgreiða sjávarútveginn á Íslandi. Það þykir væntanlega góð lexía, það er væntanlega eitthvað sem Evrópusambandið vill athuga hvers vegna sé. Kannski er það ástæðan fyrir því að farið er að skoða nýjar leiðir þar. Mig langar rosalega að sjá hvert þær leiðir liggja og ég tel í sannleika sagt að það verði best gert með því að halda áfram að tala við Evrópusambandið um þann kafla, í það minnsta að byrja á því, það er kannski betra að byrja á því yfir höfuð að tala við Evrópusambandið um það, vegna þess að eins og hér hefur oft verið nefnt breytist Evrópusambandið rétt eins og Ísland. Nóg um það í bili, ég vík kannski að því aftur á eftir.

Það sem mér finnst aftur dæmigert er það að þingsályktunartillagan er borin fram löngu áður en umræðu um skýrsluna er lokið. Það segir sitt. Mér finnst það ekki mjög fagmannlegt.

Þá vil ég taka fyrir þessi svokölluðu ómöguleikarök, en það eru þau rök að ríkisstjórnin geti ekki skilað almennilegri niðurstöðu ef báðir ríkisstjórnarflokkarnir eru á móti þessu. Hér var ríkisstjórn þar sem annar flokkurinn vildi ganga inn og hinn ekki, og vissulega er það satt að samræðurnar hafi gengið hægar og kannski verið varfærnislegri en lagt var upp með. En það er ekkert ómögulegt, það er ekki ómögulegt að gera eitthvað sem maður vill ekki endilega gera. Ég hefði haldið að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hefðu lent í því í lífinu að þurfa að takast á við verkefni sem þeim var illa við að þurfa að takast á við eða ljúka — stundum hefur maður yfirmenn, stundum hefur maður skjólstæðinga, eins og hv. lögfræðingar kannast væntanlega við, sem þarf að vernda. Maður þarf að vinna að hagsmunum einhvers sem maður er ekkert endilega sammála. Það er bara eðlilegur hluti af því að vinna vinnuna sína þegar maður hefur skjólstæðing. Ég veit að lögfræðingar kannast við þetta og ég ætlast til þess að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar taki svona til sín og taki alvarlega.

Við erum hér að vinna fyrir þjóðina og engan annan. Það eru engir aðrir yfirmenn en þjóðin. Þegar þjóðin biður okkur um að vinna að verkefni þá finnst mér það satt best að segja opið og óskammfeilið ábyrgðarleysi að segja fyrir fram: Nei, ég vil ekkert vinna að því verkefni, kæra þjóð — að því gefnu að þjóðin vilji halda áfram, sem aftur er ekkert víst.

Vel á minnst, hæstv. ríkisstjórn virðist gera ráð fyrir því að þjóðin mundi vilja halda viðræðum áfram ef haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Hún treystir sér greinilega ekki til að sannfæra þjóðina um að það sé óþarfi eða peningasóun eða hreinlega slæm hugmynd. Ég hefði haldið að það væri auðvelt að sannfæra þjóðina um það, þ.e. eftir að þjóðin hefði fengið betra tækifæri til að ræða þessa skýrslu og komast að niðurstöðu með það í huga að álit almennings gæti hugsanlega — já, bara hugsanlega — skipt einhverju máli og hægt væri að tjá það á fleiri vegu en þann að merkja við einn bókstaf á fjögurra ára fresti, sem mér finnst ekki nóg.

Fyrir utan það eru þessi ómöguleikarök í skásta falli réttlæting fyrir hléi, ekki fyrir því að slíta viðræðunum. Ef við slítum viðræðunum þurfum við að byrja upp á nýtt. Það er skemmdarverk þegar allt kemur til alls og það er óþarfi, fyrir utan hversu ólýðræðislegt það er, með hliðsjón af þeim mótmælum sem eiga sér stað með undirskriftum og síendurteknum niðurstöðum í skoðanakönnunum, ekki einni eða tveimur, allar sem ég hef séð, hver ein og einasta sem ég hef séð.

Einnig hefur verið talað um aðlögunarviðræður og samningaviðræður eins og það sé endanlega tvennt ólíkt, annað gott og hitt slæmt. Þegar við erum að tala um að gera samninga þá er maður alltaf að laga sig að einhverju, það felst í eðli þess að gera samning um hvaða hlut sem er. Ef ég geri samning er ég að laga mig að hagsmunum þess sem ég er að kaupa af eða selja og öfugt. Það heitir viðskipti og viðskipti eru góð, er það ekki? Ég held að viðskipti séu góð, ég held að viðskipti séu mjög góð.

Svo er annað sem ég hef áhyggjur af, og ég er hissa á því að aðrir hv. þingmenn hafi ekki jafn miklar áhyggjur af því og ég, en það er framtíð Íslands innan EES ef við slítum einfaldlega viðræðunum. Ef við gerum hlé á þeim er það eitthvað sem við þurfum að ræða og ég vænti þess að við ræðum það, ég hlakka svolítið til að ræða það, ábyggilega margt að ræða í þeim efnum. En ef við slítum viðræðunum óttast ég, kannski af fáfræði, vonandi geta aðrir hv. þingmenn þá frætt mig um það, að EES verði þeim mun meira vandamál að eiga við. Vegna þess að EES fer ekki neitt, eða hvað? Ég vænti þess að EES sé ekki að fara neitt

Með hliðsjón af því að við þurfum að innleiða reglugerðir Evrópska efnahagssvæðisins eða Evrópusambandsins í gegnum EES þá gengur alltaf lengra og lengra á þetta sjálfstæði okkar, svo mundu andstæðingar Evrópusambandsins fullyrða og hafa fullyrt ítrekað. Það er önnur umræða sem við þurfum að fara í. Það var mjög stór og erfið umræða á sínum tíma, meira að segja ég man eftir því, ég er ekki það ungur. Það var gríðarlega stór umræða og mikil og erfið, og ég vænti þess að sú umræða verði jafn erfið. Og þá þurfum við aftur að spyrja: Ætlum við að halda okkur í góðum viðskiptum við Evrópu eða ætlum við ekki að gera það? Og hver er fórnarkostnaðurinn? Sama spurningin, nema hvað það varðar að við höfum eitthvað að segja innan Evrópusambandsins ef við verðum hluti af því. Við höfum mjög lítið að segja innan Evrópska efnahagssvæðisins, það er þannig. Við getum jú haft okkar fyrirvara o.s.frv., en þegar kemur reglugerð þá er komin reglugerð.

Eins og menn vita þá kemur að því að breyta þarf stjórnarskrá, sérstaklega til að við getum uppfyllt reglugerðir og skilyrði fyrir því að vera í EES. Þá þurfum við væntanlega að taka þessa sömu umræðu. Þessi geðveikislegi ótti við að tapa sjálfstæðinu við að ganga í Evrópusambandið, ég sé ekki að sá ótti ætti að vera minni ef við slítum viðræðunum núna. Þvert á móti reyndar ef eitthvað er, þá er alveg víst að við höfum ekkert að segja um reglugerðir o.s.frv., eða mjög lítið í það minnsta.

Þetta er auðvitað allt sem varðar Evrópusambandið sjálft og Evrópska efnahagssvæðið sjálft. En það er annað sem hefur verið hér til umræðu sem mér finnst mikilvægara og stærra en Evrópusambandið og það er hugmyndin um lýðræðið, þetta fyrirbæri sem við Íslendingar eigum að vera svo stoltir af. Við eigum að eiga elsta þjóðþing í heimi, vera ofboðslega dugleg í lýðræði o.s.frv. Ég verð að segja fyrir mig að sem borgari hef ég ekki tekið eftir því að við séum neitt sérstaklega lýðræðisleg, fyrirgefið, ég hef bara ekki séð það. Ég hef séð einn bókstaf á fjögurra ára fresti og það telst til tíðinda ef fleiri en fjórir kostir eru í boði, fjórir bókstafir, einn af fjórum bókstöfum á fjögurra ára fresti. Það er bara ekki nóg, sérstaklega ekki á 21. öldinni, þegar almenningur er mun betur í stakk búinn til að bæði fræðast, afla sér upplýsinga um efnið, hvaða efni svo sem það er, og líka betur í stakk búinn til að tjá sig við aðra um efnið. Úr því verður hið stórmerkilega og undursamlega fyrirbæri sem heitir umræður. Ég er ekki að tala um umræður á hinu háa Alþingi, ég er að tala um umræður í samfélaginu.

Það hefur aldrei verið auðveldara að brjóta mál til mergjar en nú, það hefur aldrei verið auðveldara að safna sér upplýsingum og það hefur aldrei verið betur við hæfi að treysta þjóðinni fyrir ákvörðunum um eigin hag en nú, aldrei nokkurn tíma í sögu mannkyns. Vonandi verður það betra, við sjáum til með það.

Mér leiðist að viðhorf yfirvalda gagnvart lýðræði, og ekki bara þessarar hæstv. ríkisstjórnar, er oft þannig að þjóðinni komi þetta eiginlega ekki svo mikið við. Ríkisstjórnin nennir þessu ekkert hvort sem er. Hvaða máli skiptir það þó að þjóðin hafi annað álit? Þetta er viðhorf sem mér finnst ofboðslega sorglegt og ofboðslega rangt, og ég meina ekki bara siðferðislega rangt heldur rökfræðilega rangt. Það skapar ekki skyn — þetta er mín lélega þýðing á því að „meika sens“, virðulegi forseti, með leyfi — að ætla þjóðinni að vera einhver vitleysingur þegar kemur að eigin hagsmunum. Fyrir utan það þá er lýðræðið — hér er punktur fyrir hv. hægri menn — spurning um sjáfsákvörðunarrétt á sama hátt og einstaklingsfrelsið en bara á öðrum skala. Eins og geimvísindin eru jú eðlisfræði á öðrum skala, þá er lýðræðið bara einstaklingsfrelsi á öðrum skala, þ.e. þegar við erum í hópum, í þorpum, borgum, þjóðum, þjóðarsamkundum. Það er það sem lýðræðið snýst um, það snýst um réttinn til þess að taka eigin ákvarðanir.

Hér er spurning sem varðar alla þjóðina, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og það er skylda okkar, ef við metum sjálfsákvörðunarréttinn einhvers, að spyrja þjóðina hvað henni finnist. Ef við höfum ekki einu sinni rænu á því að spyrja með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þá fullyrði ég að lýðræðisaðferðirnar sem við höfum í dag séu úreltar. Þá þurfum við að styrkja lýðræðið á Íslandi með beinum þjóðaratkvæðagreiðslum um málefnin sjálf en ekki bara með því að merkja við einn bókstaf á fjögurra ára fresti.

Ég hef upp á síðkastið oft minnt mig á orðalagið „samráð skapar sátt“, það skapar sátt ef maður hefur samráð, jafnvel þó að fólk sé ekki endilega sammála eftir á. En þegar samráð er viðhaft þá skapar það sátt. Hér hafa verið mótmæli, ég veit ekki hve mörg þúsund manns hafa mætt á þessi mótmæli þrjá daga í röð, sem er fréttnæmt á Íslandi svo að ekki verði meira sagt. Og það eina sem þjóðin vill er samráð, ekki er einu sinni eining um það að ganga í ESB, ekki einu sinni það. Það er ekki það sem fólkið vill endilega. Það vill bara að það sé spurt, það vill að tekið sé mark á því sem þjóðin sjálf vill, vegna þess að þjóðin er hætt að trúa því að hv. þingmenn viti allt best. Hvers vegna hefur hún misst trú á því? Vegna þess að við vitum ekkert allt best. Icesave hefði átt að sýna hæstv. ríkisstjórn fram á það. Ég hefði haldið að hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hefðu aðeins meiri trú á lýðræðinu eftir það sem á undan er gengið, sérstaklega eftir að hafa barist svo hetjulega fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni, þ.e. áður en hv. þingmenn urðu að hæstv. ráðherrum.

Hér er um að ræða ákvörðun sem hefur mjög afdrifaríkar afleiðingar og varðar alla þjóðina. Sú ákvörðun er bæði spurning um gildi og pragmatík, hún er spurning um staðreyndir og álit og allt þar á milli. Ef þetta mál á ekki heima í þjóðaratkvæðagreiðslu þá veit ég ekki hvað í ósköpunum ætti heima þar. Þegar allt kemur til alls er þetta spurning um hvort við ætlum að fara með lýðræðið áfram eða hvort við ætlum að standa í stað.

Ég segi fyrir mig, þegar kemur að lýðræðinu, hversu langt sem fólk vill ganga í því: Frekar of snemma en of seint, frekar of oft en of sjaldan, frekar of mikið en of lítið.