143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:53]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skildi ekki spurninguna sem ég fékk hér áðan um það hvort spyrja hefði átt þjóðina hvort við vildum ganga í ESB. Ég veit ekki hvernig hefði átt að spyrja að því án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut um það hvað það þýddi.

Við sitjum hér og erum að ræða þessa skýrslu og fram kemur að gríðarlega mikill ágreiningur er um það hvað í henni stendur eða hvað það þýðir. Við höfum verið að ræða hér um aðlögun eða ekki aðlögun.

Við ætlum að byrja á að spyrja þjóðina hvort hún vilji ganga í ESB og fara svo í samninga. Fyrirgefðu, um hvað ætlarðu þá að semja? Ef hv. þm. Höskuldur Þórhallsson heldur að þetta þýði að við höfum engu getað ráðið þá þurfum við ekkert að fara í samningaferli.

Þarna greinir okkur greinilega á. Ég lít þannig á að við höfum verið í undirbúningi til að leggja mat á hvort við ættum að fara í Evrópusambandið eða ekki. Fólkið sem ég er að hlusta á hér úti á Austurvelli, fólkið sem er að skrifa okkur, fólkið sem er að kvarta yfir svikum og breytingum á áætlunum, er að segja: Við viljum sjá hvað er í boði. (Forseti hringir.) Og ég er enn þá þeirrar skoðunar.