143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[01:21]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa síðustu yfirlýsingu. Hún hefði gjarnan mátt koma fyrr þannig að við hefðum getað haft tækifæri til að vera með afmælishald í nótt, og kannski ættum við bara að vera nóttina. Ég kemst hvort sem er ekki í gististað og mér sýnist á öllu að ég verði að fresta því að fara á Bíldudal og ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti verði að fresta því líka, og ætli við verðum ekki að sleppa búnaðarþingi líka ef við ætlum að halda svona áfram. Staðreyndin er sú og það hefur löngu legið fyrir að við gætum lokið þessari umræðu ef við fengjum skýr svör og fengjum hæstv. utanríkisráðherra til að koma hingað og taka þátt í umræðunni og reyna að svara örlitlu af spurningum þannig að við færum vel nestuð með þetta mál til hv. utanríkismálanefndar. Það hefur staðið á því í sambandi við umræðuna.

Ég kveinka mér ekkert við að vera hérna í alla nótt ef það þarf að vera þannig, en ég þakka forseta þó fyrir að láta okkur vita að ekki eigi að taka annað mál fyrir núna í myrkrinu. Ég var samt að vona að þetta yrði þannig að við keyrðum þrjú málin saman og við tækjum fyrsta málið með utanríkisráðherra (Forseti hringir.) eftir að við færum. Hann talaði þá bara einn í myrkrinu og síðan kæmum við í dagsljósinu með þær tillögur sem eiga að ræðast samtímis.