143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[01:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og raunar líka ræðu hennar hina fyrri þar sem ég komst ekki til að fara í andsvör við hana þá.

Af því að ég veit að hv. þingmaður hefur fylgst lengi með umræðunni um Evrópusambandið og hefur ríkar skoðanir á þeim málum þá langar mig að spyrja um afstöðu hennar gagnvart þessari skýrslu af því að ég er svolítið hugsi hvað hana varðar, bæði vegna þess hversu mikið vantar í hana, þ.e. vegna þessara skallabletta sem eru í henni, en kannski ekki síður varðandi þann veruleika sem verið hefur að dragast upp í umræðunni sem einkennist svolítið af því að allir geta sótt sér rök í hana nánast óháð því hver afstaða þeirra er. Það minnir mann nú bara á aðrar bækur í sögunni, að hægt er að finna rök fyrir nánast öllu í viðkomandi plaggi.

Hv. þingmaður nefnir hérna sérstaklega að það sé veikleiki í skýrslunni varðandi gjaldmiðilinn, að ekkert sé fjallað um hann, en mér hefur líka fundist það veikleiki að lítið sé í raun fjallað um meginpólitíska strauma í Evrópusambandinu á undanförnum árum. Þá er ég að tala um viðbrögðin við efnahagserfiðleikum í einstökum löndum sambandsins og oft og einatt hægri sinnaðar áherslur í því sem eru mjög eindregnar niðurskurðaráherslur o.s.frv., svo furðulega sem það hljómar þá svipar því að sumu leyti til þess sem núverandi ríkisstjórn aðhefst hér á Íslandi. Ég vil spyrja hv. þingmann um þetta, þ.e. annars vegar hvernig hún sér veikleikana í skýrslunni og hvers hún saknar (Forseti hringir.) og hins vegar hvar hún telur styrkleika hennar liggja fyrst og fremst.