143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[01:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni. Það er nú bara einfaldlega þannig að ákveðinn hópur fólks á Íslandi er Evrópusinnar vegna þess að það er umhverfissinnar og lítur svo á, sem er algjörlega rétt, að ýmis þau framfaramál hér á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála megi þakka aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og þeim tilskipunum sem við höfðum innleitt hér vegna veru okkar þar. Það er þekkt að hægri stjórnin, stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hefur nú ekki farið um íslenskt umhverfi mildum höndum og þarf ekki að koma á óvart að ekki hafi verið lögð sérstök áhersla á þessa þætti, enda hefur þeim ekki verið forgangsraðað af þessum flokkum í valdatíð þeirra. Hér var nú ósjaldan þráast við á síðasta kjörtímabili þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna innleiddi hvert umbótamálið á fætur öðru á sviði náttúruverndar og umhverfis og efnt til langra ræðna gegn framfaramálum í þágu umhverfis og komandi kynslóða.

Þetta er auðvitað eitt af þeim málum sem skiptir vaxandi fjölda Íslendinga máli. Um heimsbyggð alla er almenningur að vakna til vitundar um mikilvægi þessara mála og að þau séu hörðu (Forseti hringir.) málin í stjórnmálum dagsins í dag og ekki nokkuð sem hægt er að láta mæta afgangi.